12.4.2010 | 14:45
Skýrslan
Ég var ákveðin að láta þessa skýrslu ekki hafa áhrif á sálartetrið. En hún hafði það samt. Eftir að hafa horft á blaðamannafundinn áðan er ég dofin og með vont bragð í munninum. Hugsa sér, að heilt þjóðfélag lét hafa sér að fífli! Og við fáir sem höfðum uppi gagnrýni á móti neyslubrjálæði sem heltók menn í stórum stíl voru stimplaðir sem fýlupúka og svartsýnisrausara. Ráðherrar, seðlabankastjórar, eftirlitsmenn eru uppvísir um vanrækslu í starfi. Þingmenn (eða maka þeirra) þáðu milljarðalán. Bankastjórar eru uppvísir um glæpsamlegt athæfi. Hvað nú? er hægt að endurheimta eitthvað af þeim peningum sem menn sölsuðu undir sig og stálu frá þjóðinni í stórum stíl? Verða ráðherrar og bankastjórar dæmdir. Hvernig eru viðurlög í svona dæmi?
Þetta er sorgadagur. Ég er hrædd um að okkar stjórnsýsla er það ófullkomin að ekkert er hægt að aðhafast gagnvart aðalsökudólgunum. Ætla fylgi Sjálfstökuflokksins og Framsóknar sé ennþá eins mikið og í síðustu könnun?
Athugasemdir
Úrsúla
Ég finn nú ekki til neinnar sorgar vegna þessa dags, fremur til léttis þar sem ég upplifi að það fólk sem vann þessa skýrslu hafi verið að vinna vinnuna sína.
Stjórnmálamennirnir fá sinn skammt og er það vel. Við þurfum hins vegar að fá næstu skýrslu sem tekur á því hvernig núverandi fjármálaráðherra vogar sér að senda afdankaða stjórnmálamenn til samninga við Breta og Hollendinga, í stað fagmanna. Hversu marga milljarðatugi kostuðu slík afglöp og hvernig ætlar núverandi fjármálaráðherra að bera ábyrgð á því dæmi.
Svo tek ég eftir því að þú veltir fyrir þér fylgi Sjálfstæðisfokks og Framsóknar í framhaldi af birtingu skýrslunnar. Hvað með Samfylkingaunnar?
Eða erum við komin í það hugarástand að sumir séu orðnir jafnari en aðrir. Það er hópur hérlendis sem á sér þann draum stæðstan að hér rísi nýtt Austur Þýskland.
Sigurður Þorsteinsson, 12.4.2010 kl. 15:16
Úpps, þetta með nýja Austur Þýskaland var nú ekki mjög málefnalegt. Aðdragandinn að því hvernig fór er áður en Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórninni. Þetta gerðist í stjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. En auðvitað á ekki að hvítþvo menn sem voru sofandi og sinntu ekki starfinu sínu.
Úrsúla Jünemann, 12.4.2010 kl. 20:53
Úrsúla,
í fyrsta lagi var bankahrunið á vakt Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Björgvin Sigurðsson var viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar í þeirri stjórn og er í skýrslunni álitinn hafa sýnt vanrækslu í starfi. Ingibjörg Sólrún fær heldur ekki háa einkunn, þó hún hafi sloppið við vanrækslustimpilinn af tæknilegum ástæðum.
Í öðru lagi er hægt að rifja upp að Steingrímur Sigfússon studdi þá leið að kjölfestufjárfestar yrðu kallaðir til við einkavæðingu bankanna. Sumir í VG hafa hamrað á því að hafa verið á móti einkavæðingunni. Þeir hafa nú sjálfir einkavætt bankanna og til lítið geðslegri kaupenda en keyptu gömlu bankanna.
Varðandi Austur Þýskaland, þá er það einmitt afar málefnalegt innlegg. Í Austur Þýskalandi ríkti hugarfar sem var afar líkt því sem ríkir nú á stjórnarheimilinu. Í þeim anda voru dregnir upp tveir afdankaðir kommúnistar til að semja um Icesave. Auðvitað þarf að setja upp aðra rannsóknarnefnd til þess að fjalla um þá framgöngu. Þeir félagar ásamt Steingrími Sigfússyni verða seint sakaðir um fagmennsku í þeim vinnubrögðum, ekki frekar en margir af þeim sem komu að því hruni sem núverandi skýrsla fjallar um.
Sigurður Þorsteinsson, 12.4.2010 kl. 22:38
Ég myndi segja að hluti ákvarðana þessarar og síðustu ríkisstjórnar minnir á starfshætti austur evrópu ríkja í efnahagsmálum.
Hluti af því er að það er ekki "æskilegt" að Íslendingur starfi á Íslandi en sé í sambúð erlendis, t.d. í Þýskalandi eins og ég. Að hafa samband við þingmenn, ráðherra og Seðlabanka er eins og að berja hausinn við stein.
Og það besta við vini og ættingja á Íslandi er að það er meiri samúð með ríkisstjórn og Seðlabanka en með mér sem er að reyna að koma mér upp fjölskyldu. Ástin þekkir jú engin landamæri og kanski þekkir þú vel hvernig það er að reyna að útskýra það fyrir Þjóðverjum hvað gjaldeyrishöft séu og að þau eru hér á Íslandi.
Annað er þetta tvöfalda gengi sem er notað. Erlendir fjárfestar fá að nota hagstæðara gengi en Íslendingar. Og einnig reglur um gjaldeyrisreikninga er líkt því sem var við líði í Austur Þýskalandi, allavega fæ ég ekki betur skilið á wikipedia.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 01:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.