28.12.2010 | 19:23
Strætisvagnar á rangri leið?
Strætisvagnar á rangri leið? Nú á aftur að hagræða í rekstri strætisvagnanna, sem sagt hækka álögur á almenning. Eldri borgarar munu eftir nýjustu hugmyndunum ekki fá afslátt fyrr en við 70 ára aldur og unglingaafsláttur mun lækka. Stakt fargjald í strætó verður 350 kr. í staðinn fyrir 280 sem mér þykir frekar hraustlega gripið í vasa notenda. Undanfarið var hægt að greina aukna notkun fólks á strætisvögnum og er það mjög jákvætt: Mengun vegna einkabílanotkunar minnkar, minni umferðateppur er á háannatímum og eftirspurn eftir bílastæðum er ekki alveg jafn mikil. Hvað eru stjórnendur Strætisvagna að spá núna með nýjustu hagræðingu sinni? Jú, það má auðvitað ráðast endalaust á þá sem eiga ekki annarra kosta völ: Gamalmenni, börn og unglinga sem mega ekki aka bíl og fólk sem á ekki efni að reka bíl. Það er líka til fólk sem spáir í umhverfisáhrif af ofnotkun einkabíla og tekur strætó svona af og til. Ég tilheyri þessum hópi, en er ekki til að borga miklu meira í strætó en það kostar að ferðast ein í bíl þrátt fyrir hátt bensínverð. Almenningssamgöngur eru þjónustufyrirtæki sem munu aldrei skila hagnaði en eru nauðsynlegar fyrir fjölda fólks. Þær bæta lífvænlega þáttinn í þéttbýlinu og stuðla að betra og hollara umhverfi. Auðvitað er eðlilegt að takmarka kostnaðinn af rekstri strætisvagnanna eins og hægt er. En er sparað í þessu fyrirtæki þar sem réttast væri?Hér eru nokkur dæmi: 1. Það var tekið upp eitthvað ömurlegt kerfi þar sem rödd í vögnunum kallar upp nafn á næstu stoppistöð. Þetta er notendum og sennilega einnig vagnstjórum bara til óþæginda enda margir vagnstjórar búnir að lækka í þessum óþolandi og pirrandi hávaða þannig að ekkert heyrist. Fólk sem notar strætó daglega þarf ekki á slíkri vitleysu að halda og ferðamenn sem nota strætó á sumrin skilja hvort sem er ekkert í þessu. Nær væri að gefa út almennilegt kort sem sýnir bæði götur og stoppistöðvar strætó þannig að hægt væri fyrir ókunnugt fólk að rata betur.2. Enn er í fersku minni eitthvað smart- kort kerfi sem átti að umbylta þjónustu í strætó. Þetta kostaði frekar mikið en kom aldrei í gagnið. Hver ber ábyrgð á svona gagnslausu bruðli? Ennþá er hins vegar vandratað að kaupa sér miða í strætó. Það er bara hægt á nokkrum stöðvum og þeir sem nota vagna bara af og til verða að hafa klink í vasanum til að geta borgað. Þarna er kerfið semsagt ennþá alveg á fyrsta bekk.3. Bílaflotinn hjá strætó er alltaf mjög nýlegur en ekki að sama skapi betri. Mér sem notanda er nákvæmlega sama hvort strætisvagninn er 1 eða 20 ára gamall ef hann er bara þrifinn og ferðirnar eru nógu tíðar. Sumstaðar í stórborgunum er meira að segja lögð rækt við að nota gamla vagna á sumum leiðum og hefur það mælst vel fyrir hjá túristunum.4. Vagnarnir sem eru núna mest notaðir eru ekki betri en þeir eldri. T.d. er erfitt ef fleiri barnavagnar eða hjól þurfa að komast með í sömu ferð. Vagnstjórinn hefur stundum þurft að skilja farþega eftir sem var ekki pláss fyrir. Sæti sem snúa á móti hvoru öðru eru ekki mjög notendavæn. Mér þykir óþægilegt að sitja með lappirnar þétt við fætur ókunnugs fólks sem reynir yfirleitt að stara framhjá mér vegna þess að því finnst þetta líka óþægilegt. Þessi sæti eru bara vinsæl hjá unglingunum sem eru þá oftast með fæturna upp á sætunum. Mér sem notandi finnst mikilvægast að:- Fargjaldið sé lægra en bensínið myndi kosta ef ég tæki einkabílinn.- Strætisvagnar séu notandavænir, einnig fyrir fólk í hjólastól, með hjól eða barnavagn.- Ferðir séu tíðar þannig að ég verð ekki fyrri miklu tímatapi.- Biðstöðvar séu þannig að þær haldi vatni og vindi og séu þokkalega viðhaldnar. Allt hitt óþarfa bruðl og pjatt má sleppa mín vegna. Þar má spara! Úrsúla Jünemann, kennari (hingað til ennþá notandi strætó)
Athugasemdir
Góð grein .Man eftir gömlu Volvo vögnunum en það var þokkalegt pláss fyrir reiðhjól aftast í þeim.
Hörður Halldórsson, 28.12.2010 kl. 21:45
Bæði og mundi ég segja. Það er slæmt að dregið verði úr þjónustu en það þurfti að hækka fargjöld í strætó. Fargjöld fyrir fasta notendur er eftir sem áður með þeim ódýrustu á Norðurlöndum. Ég er alveg sammála því að styrkja þarf almenningssamgöngur, hafa fargjöld sanngjörn og samhæfð yfir allt höfuðborgarsvæðið og nágrannabyggðir á Vesturlandi, Suðurlandi og á Reykjanesi. Að styrkja almenningssamgöngur er samt svo miklu flóknara en bara að huga að þjónustu og verðlagningu Strætó bs. Ég tók það einhverntímann saman í bloggfærslu:
http://arnid.blog.is/blog/arnid/entry/919541/
Í bráð þarf að huga að þáttum sem auka samkeppnishæfni strætó gagnvart einkabílnum og bættri þjónustu strætó eins og hægt er. Til framtíðar þarf að huga að skipulagsmálum og fyrirkomulagi verslunar og þjónustu. Ef þetta er gert er svigrúm fyrir talsvert aukin hlut almenningssamgangna í samgöngum.
Árni Davíðsson, 29.12.2010 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.