7.12.2009 | 21:42
Dýr eru ekki leikföng
Það er yndislegt að eiga heimilisdýr og það er mjög þroskandi fyrir börn að alast upp með dýr og þurfa að taka ábyrgð á því að sinna þeim. En áður en ákvörðun er tekin að fá dýr inn á heimili þá er gott að athuga: Er ég til að gefa minn tíma reglulega til að sjá um nýja heimilisvininn? Er ég til að þrífa upp á eftir dýrinu? Er ég til að borga fyrir dýralækni ef til þarf? Finnst mér jafn spennandi að eiga dýrið þegar það er orðið fullvaxið og ekki bara lítið og sætt? Ber ég virðingu fyrir eðli dýrsins? Sumstaðar verða lifandi dýr gefin í jólagjöf. Því miður er oftast ekki hægt að fara að skipta þegar gjöfin fellur ekki nógu vel í geð. Svo það er mikilvægt að hugsa sig vel um. Kannski hentar tuskudýr bara betur sem finnur ekki til þegar því er hent í ruslið.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld sást smá myndskeið úr dýragarði í Japan þar sem mörgæsir þurftu að vappa um í jólasveinabúningi og voru eltar af stórum hópi af krökkum. Og hvað litlu mörgæsirnar voru fyndnar og sætar! Þetta er ekki goð fyrirmynd. Dýr eru ekki leikföng.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.